Við undirrituð, íbúar og áhugafólk um skólastarf í Laugardal,
skorum á borgaryfirvöld að samþykkja tillögu um að byggt verði við Laugarnesskóla, Laugalækjarskóla og Langholtsskóla.
Undanfarinn áratug hefur stóraukinn nemendafjöldi þrengt sífellt meir að starfi Laugarnesskóla, Laugalækjarskóla og Langholtsskóla og er nú svo komið að aðstaða nemenda og starfsfólks er komin langt fram yfir þolmörk.
Skólarnir í Laugardal eiga langa sögu um farsælt skólastarf þar sem mikil ánægja ríkir í skólasamfélaginu, jafnt meðal foreldra, nemenda og starfsfólks. Í skólunum fer fram framsækið og faglegt skólastarf sem hvílir á sterkum grunni hefða og virðingar fyrir réttindum barna og velferð þeirra. Skólarnir í Laugardal eiga stærstan þátt í því að hverfin hafa orðið að eftirsóknarverðum búsetukosti barnafólks og þeir eru eftirsóttir vinnustaðir kennara og annars fagfólks í skólastarfi.
Aðrar tillögur sem fram hafa komið um framtíðarskipan skólastarfs í Laugardal bera með sér verulega ágalla og eru til þess fallnar að valda miklu raski og jafnvel óafturkræfum skaða á skólastarfi í hverfinu. Tillaga um tvo nýja skóla og verulega breytta skólagerð hinna skólanna tveggja myndi stórauka fjarlægð frá heimilum hundruða nemenda til skóla með tilheyrandi umferðarþunga og auka félagslega einsleitni í gerbreyttum skólahverfum.
Frekar en að breyta, breytinganna vegna, viljum við að þeim verðmætum, sem felast í farsællri menningu skólanna okkar og mannauði þeirra, verði mætt af virðingu og krefjumst þess því að hafinn verði undirbúningur að viðbyggingum við skóla hverfisins án tafar.